Þór/KA endaði á sigri á botnliðinu

HK/Víkingur og Þór/KA eigast við í kvöld.
HK/Víkingur og Þór/KA eigast við í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þór/KA hafði betur gegn HK/Víkingi í fyrsta leik lokaumferðar Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í Kórnum í kvöld, 1:0. Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. 

Þór/KA fékk hvert tækifærið á fætur öðru í fyrri hálfleik og var það með ólíkindum að það tók liðið 41 mínútu að skora. Hvað eftir annað varði Audrey Baldwin með miklum tilþrifum auk þess sem boltinn fór þrisvar í stöng og einu sinni í slána á marki HK/Víkings. 

Að lokum kom þó markið og það skoraði Arna Sif Ásgrímsdóttir með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu. Þór/KA átti 17 tilraunir að marki í fyrri hálfleik og þar af 12 á markið. Þrátt fyrir það var staðan í hálfleik aðeins 1:0. 

Síðari hálfleikurinn var töluvert rólegri en HK/Víkingur var nálægt því að jafna þegar Simone Kolander negldi boltanum í slána um miðjan hálfleikinn. Nær komst HK/Víkingur hins vegar ekki og Þór/KA endaði með 28 stig í fjórða sæti og HK/Víkingur í botnsætinu með sjö stig. 

HK/Víkingur 0:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Þór/KA fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert