Mikilvæg markasúpa úr drullupollinum

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sjötta mark íslenska liðsins gegn Lettum …
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sjötta mark íslenska liðsins gegn Lettum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hver veit nema mark Margrétar Láru Viðarsdóttur, á fimmtu mínútu uppbótartíma, í 6:0-sigrinum á Lettlandi í gær skili Íslandi á EM í Englandi 2021? Það er ómögulegt að segja til um það núna en hvert mark gæti reynst dýrmætt í snúinni baráttu um að komast á fjórða Evrópumótið í röð.

Íslenska liðið sýndi fagmannleg vinnubrögð við óboðlegar aðstæður í Lettlandi í gær, þar sem blautur, þungur og mjög skemmdur völlur kom í veg fyrir að boltinn færi hratt á milli leikmanna, og vítateigarnir breyttust í drullusvað. Stelpurnar okkar notuðu höfuðið, bókstaflega, því ekki stoppar boltinn í loftinu þótt völlurinn sé slæmur, og skoruðu tvö skallamörk og eitt beint úr hornspyrnu til að komast í 3:0 í fyrri hálfleik. Mörkin hefðu getað orðið fleiri en 6:0-sigur er góð niðurstaða á velli þar sem Svíar unnu til að mynda 4:1-sigur fyrr í haust.

Svíþjóð og Ísland eru nú bæði með fullt hús stiga í F-riðli eftir 3 umferðir af 8, en Svíar með 5 mörkum betri markatölu. Ef fram heldur sem horfir leika liðin tvo úrslitaleiki um efsta sæti riðilsins næsta sumar. Liðið sem nær efsta sæti fer beint á EM en þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti í undanriðlunum níu komast einnig á mótið (hin sex fara í umspil um þrjú sæti). Tapi Ísland baráttunni við Svía, eins og væri svo sem eðlilegt, gæti því skipt sköpum að hafa unnið sigra í öllum hinum leikjunum í riðlunum, og skorað mörg mörk, til að hafa betur í samanburði við lið í 2. sæti úr öðrum riðlum.

Umfjöllun um leik Lettlands og Íslands í undankeppni EM kvenna má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert