KR-ingar fá góðan liðsstyrk

Ana Victoria Cate með boltann í leik með Stjörnunni gegn …
Ana Victoria Cate með boltann í leik með Stjörnunni gegn KR. mbl.is/Golli

Kvennalið KR í knattspyrnu hefur fengið góðan liðsstyrk en Ana Victoria Cate hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á heimasíðu KR.

Ana Victoria, sem er 28 ára gömul, kemur til KR frá HK/Víkingi en hún hefur spilað hér á landi frá árinu 2014. Hún lék fyrst með FH og fór þaðan til Stjörnunnar og varð í tvígang Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með Garðabæjarliðinu. Ana var í barneignafríi og fór ekki af stað fyrr en undir lok síðasta tímabils með HK/Víkingi.

Ana hefur spilað 67 leiki í efstu deild hér á landi og hefur í þeim skorað 16 mörk. Þá á hún 12 leiki að baki með landsliði Níkaragúa.

mbl.is