Nýtt knatthús vígt í Mosfellsbæ í dag - Þjálfarar kynntir til leiks

Leikmenn kvennaliðs Aftureldingar fagna marki í sumar.
Leikmenn kvennaliðs Aftureldingar fagna marki í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag fer fram formleg vígsla á nýju og glæsilegu knatthúsi að Varmá í Mosfellsbæ. Húsið er um 3.200 fermetrar að stærð og rúmar hálfan knattspyrnuvöll. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Aftureldingu.

Húsið mun gjörbylta allri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar að Varmá. Í húsinu verða einnig hlaupabrautir sem munu nýtast frjálsíþróttadeild félagsins. Sannkallað fjölnota knatthús að Varmá.

Formleg vígsla á húsinu fer fram í dag. Dagskrá hefst kl. 13.00 og stendur til 15.00. Meðal þeirra sem munu taka til máls á þessum viðburði eru Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar og Guðni Bergsson, formaður KSÍ. Formleg dagskrá hefst kl. 13.00.

Boðið verður upp á knattspyrnu- og frjálsíþróttaþrautir, vítakeppni og hoppukastala. Þá mun félag eldri borgara í Mosfellsbæ, FaMos, opna formlega göngubraut í húsinu. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Samið við þjálfara meistaraflokka

Knattspyrnudeild Aftureldingar ætlar að nýta þetta frábæra tækifæri og undirrita samninga við þjálfara meistaraflokka félagsins, karla og kvenna. Endurnýjaðir verða samningar við þjálfara meistaraflokks kvenna og kynntir verða til leiks nýir þjálfara meistaraflokks karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert