Skemmtilegur íslenskur sóknarleikur í Kísínev

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslendingurinn sigurinn gegn Moldóvum.
Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslendingurinn sigurinn gegn Moldóvum. AFP

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta lauk leik í H-riðli í undankeppni EM með 2:1-útisigri á Moldóvu í gærkvöldi. Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Íslands.

Sigurinn var verðskuldaður og hefði getað verið mun öruggari hefði íslenska liðið nýtt færin sín betur. Hvað eftir annað spiluðu sóknarmenn Íslands skemmtilega á milli sín og bjuggu til fín færi. Varnarleikurinn var hins vegar ekki eins öruggur og sköpuðu heimamenn sér fín færi inn á milli.

Hægribakvarðarstaðan heldur áfram að vera höfuðverkur eftir að Birkir Már Sævarsson missti sætið sitt í liðinu og réð Guðlaugur Victor Pálsson illa við hinn spræka Sergiu Platica á vinstri kantinum hjá Moldóvu. Mark heimamanna kom einmitt þegar Platica sendi fyrir markið á Nicolae Milinceanu sem kláraði vel. Sverrir Ingi Ingason nýtti tækifærið sitt ekki sérstaklega vel í miðri vörninni með Ragnari Sigurðssyni, sem var töluvert öruggari. Liðið saknaði Arons Einars Gunnarssonar á miðsvæðinu en hann ver vörnina betur en Gylfi og Birkir.

Flott frumraun Mikaels

Hinum megin á vellinum nýttu óreyndari leikmenn tækifærið töluvert betur. Mikael Anderson leit mjög vel út, en hann var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í keppnisleik. Mikael fékk tvö þung högg í leiknum og þurfti að fara af velli í seinni hálfleik vegna meiðsla, en hann lagði upp fyrsta markið á Birki. Arnór Sigurðsson var sprækur á hinum vængnum og spiluðu þeir mjög vel saman með Birki Bjarnasyni, Jóni Daða Böðvarssyni og Gylfa Þór Sigurðssyni. Sóknir Íslands voru oft á tíðum mjög fallegar og vantaði lítið upp á að fleiri enduðu með marki. Birkir átti t.a.m. skot í slá og stöng í fyrri hálfleik og Gylfi klikkaði á vítaspyrnu í seinni hálfleik og fékk auk þess fín skotfæri utan teigs. Gylfi hefur nýtt vítaspyrnur sínar illa á árinu og gæti verið kominn tími á nýjan spyrnumann.

Slæmu fréttirnar fyrir sóknarlínuna voru þær að Kolbeinn Sigþórsson þurfti að fara meiddur af velli, rétt eins og Alfreð Finnbogason gegn Tyrkjum á fimmtudag. Viðar Örn Kjartansson leysti Kolbein af hólmi en lét lítið að sér kveða, fyrir utan eitt mjög gott færi í fyrri hálfleik. Liðið saknaði Kolbeins, eftir að hann fór af velli.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert