Vestfirðingar safna liði

Bjarni Jóhannsson stjórnar liði Vestra.
Bjarni Jóhannsson stjórnar liði Vestra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vestri frá Ísafirði og Bolungarvík, sem leikur í 1. deild karla í knattspyrnu á næsta keppnistímabili heldur áfram að styrkja hóp sinn fyrir átökin sem eru framundan.

Í dag tilkynnti félagið á vef sínum að það hefði samið við spænska miðjumanninn Nacho Gil, sem hefur leikið með Þór á Akureyri undanfarin tvö ár.

Gil hefur þótt með bestu miðjumönnum 1. deildarinnar þessi tvö ár en hann er 26 ára gamall og hefur skorað 9 mörk í 36 leikjum með Akureyrarliðinu í deildinni.

Vestramenn, sem leika undir stjórn reynsluboltans Bjarna Jóhannssonar, voru áður búnir að fá Vladimir Tufegdzic í sínar raðir frá Grindavík og þá snýr Serigne Modou Fall aftur til félagsins eftir að hafa spilað í Óman á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert