Breytingar í vændum hjá landsliðinu

Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén á von á því að gera margar …
Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén á von á því að gera margar breytingar fyrir vináttulandsleik íslenska liðsins í nótt. mbl.is/Hari

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, ætlar sér að gera margar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir vináttulandsleik Íslands og El Salvador sem fram fer í Kaliforníu í Bandaríkjunum í nótt. Ísland vann 1:0-sigur gegn Kanada í Kaliforníu í vináttulandsleik á fimmtudaginn síðasta þar sem fimm nýliðar fengu tækifæri en Hamrén ætla sér að hrista upp í liðinu.

„Það verða breytingar á byrjunarliðinu,“ sagði þjálfarinn í samtali við heimasíðu KSÍ í gær. „Markmiðið fyrir þessa ferð var að það myndi enginn leikmaður spila 90 mínútur í báðum leikjunum, nema kannski Hannes Þór Halldórsson. Það er mikilvægt að hrista upp í liðinu því leikmennirnir eru ekki tilbúnir í tvo heila leiki á þessum árstíma.“

„Við sáum það gegn Kanada að margir þeirra eru ekki einu sinni tilbúnir í heilan leik sem er eðlilegt því það er undirbúningstímabil hjá flestum leikmönnum liðsins í dag. Markmiðið með þessari ferð var einnig að skoða þá leikmenn sem við völdum í hópinn og við viljum sjá hvernig allir leikmenn liðsins standa sig,“ bætti þjálfarinn lið.

Alls voru átta nýliðar valdir í landsliðshópinn fyrir leikina tvo gegn Kanada og El Salvador. Fimm fengu tækifæri gegn Kanada, þeir Daní­el Leó Grét­ars­son, Hösk­uld­ur Gunn­laugs­son, Stefán Teit­ur Þórðar­son, Al­fons Samp­sted og Bjarni Mark Ant­ons­son. Ari Leifsson, Oskar Tor Sverrisson og markmaðurinn Elías Rafn Ólafsson gætu því fengið tækifæri í nótt.

Leikur Íslands og El Salvador hefst á miðnætti að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

Ari Leifsson hefur verið fastamaður í U21 árs landsliði Íslands …
Ari Leifsson hefur verið fastamaður í U21 árs landsliði Íslands en gæti fengið tækifæri með A-landsliðinu í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is