Þar sem kviðfita er dyggð

Stofnendur og stjórnarmenn Dickenbauch eigast við, Brynjólfur Klinsmann til vinstri …
Stofnendur og stjórnarmenn Dickenbauch eigast við, Brynjólfur Klinsmann til vinstri og Björgvin Tor-Mann Kahn í miðið. Til hægri er svíperinn Andri Schürrle. Árni Sæberg

Knattspyrnufélagið Dickenbauch Sportverein GmbH, sem er með varnarþing í Kópavogi, hefur tvíþætt markmið; að stuðla að knattspyrnufegurð og útbreiðslu þýskrar menningar.
Stjórn félagsins heldur ítarlegt bókhald í þeim fróma tilgangi að niðurlægja liðsmenn sem allir bera þýsk ættarnöfn – sem stjórnin þröngvar upp á þá.

Enginn er gjaldgengur í Dickenbauch öðruvísi en að hafa hlotið þýskt eftirnafn. Í lögum félagsins kemur fram að þýsk eftirnöfn skuli ákvarðast af einhverju af eftirfarandi: Útlitslegum þáttum svipar saman, knattspyrnulegum einkennum, nafni eða öðru sem stjórn þykir sniðugt.

Varnarbuffið Rúnar Rummenigge hreinsar einu sinni sem oftar frá marki, …
Varnarbuffið Rúnar Rummenigge hreinsar einu sinni sem oftar frá marki, undir pressu frá Benedikt Frieden-Bär Littbarski. Guðmundur Huginn Hummels fylgist með. Árni Sæberg


Sjaldgæft er að skipt sé um nöfn á leikmönnum en það hefur þó komið fyrir. Þannig var nafni Vilhjálms Gündogans breytt í Vilhjálm Hasselhoff eftir að yngismeyjar gerðu aðsúg að kappanum á knæpu. Svo er það „slátrarinn“, Hörður Schlachter, sem vann sér inn nafnauka eftir að honum mistókst að kveikja í þrettándabrennunni á Ægisíðunni í byrjun ársins. Hann heitir nú Hörður Schlachter-Brandt. Nema hvað?

Á daginn kemur býsna óvænt að Þýskalandsblætið á sér ekki djúpstæðar rætur, heldur er það hrein tilviljun. „Ég hafði verið í samskiptum við einhvern Þjóðverja í vinnunni rétt áður en ég sendi út póst vegna fótboltans og í hálfkæringi hafði ég hann allan á þýsku – og það svöruðu allir á því tungumáli,“ segir Brynjólfur Klinsmann Eyjólfsson, annar stofnenda og stjórnarmanna Dickenbauch. Þar með voru örlögin ráðin.

Nafnið varð þó ekki til fyrr en árið eftir, 2008. Brynjólfur og hinn stofnandinn, Björgvin Þór Tor-Mann Kahn Björgvinsson, fengu sér þá hádegisgöngu einn daginn og þar kom sá fyrrnefndi með nafnið. Þrátt fyrir gagnsæið hefur það þó nokkra sérstöðu. „Ég gúglaði dickenbauch nýlega og fékk 258 þúsund niðurstöður en engin er með þetta í einu orði. Alltaf dicken Bauch – feitur magi,“ segir Björgvin.

„Die Mannschaft“ klárir í slaginn. Bundesrepublik Deutschland að ofan og …
„Die Mannschaft“ klárir í slaginn. Bundesrepublik Deutschland að ofan og Deutsche Demokratische Republik að neðan. Árni Sæberg


Árið 2009 hófst keppni milli austurs og vesturs, Bundesrepublik Deutschland gegn Deutsche Demokratische Republik og eiga allir leikmenn tvær treyjur, hvíta og bláa, til að klæðast eftir að formlegur slembidráttur á gólfi hefur farið fram fyrir hvern leik.
Rísi vafaatriði, sem gerist iðulega, að sögn þremenninganna, þá greiðir stjórnin og bara stjórnin úr flækjunni. Stjórnin sendir líka reglulega frá sér pistla, þar sem frammistaða manna er rifjuð upp og á þeim níðst eftir atvikum.

Að vonum er hart barist um stigabikarinn. Þegar Elvar Augenthaler var búinn að vinna þrjú ár í röð og þá brást stjórnin við með því að breyta reglunum, forgjöf byggð á Kaiserstigum. Þetta varð til þess að Brynjólfur stjórnarmaður stóð uppi sem sigurvegari og Elvar Augenthaler hætti.

Fjallað er um Dickenbauch Sportverein í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert