Meistararnir skoruðu þrjú á lokamínútunum

Kristján Flóki Finnbogason skoraði tvívegis fyrir KR í kvöld.
Kristján Flóki Finnbogason skoraði tvívegis fyrir KR í kvöld. mbl.is//Hari

Íslandsmeistarar KR unnu endurkomusigur gegn ÍA í Lengjubikarnum í knattspyrnu í Akraneshöllinni í kvöld. Leiknum lauk með 4:2-sigri KR en staðan eftir 79. mínútna leik var 2:1, Skagamönnum í vil.

Steinar Þorsteinsson kom ÍA yfir á 6. mínútu úr vítaspyrnu og staðan því 1:0 í hálfleik. Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin fyrir KR í upphafi síðari hálfleiks áður en Bjarki Steinn Bjarkason kom ÍA aftur yfir á 73. mínútu.

Kristján Flóki bætti við sínu öðru marki á 80. mínútu og Björgvin Stefánsson skoraði tvívegis með stuttu millibili, á 85. og 88. mínútu, og KR fagnaði sigri. Þetta var fyrsti leikur liðanna í 1. riðli Lengjubikarsins en KR er með 3 stig líkt og Breiðablik en ÍA og Leiknir Reykjavík eru án stiga. Afturelding og Leiknir á Fáskrúðsfirði eiga eftir að mætast í fyrstu umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert