Slysalegt atvik - reiknar með því að krossbandið sé slitið

Hallgrímur Jónasson, til vinstri, fagnar marki í leik með KA.
Hallgrímur Jónasson, til vinstri, fagnar marki í leik með KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hallgrímur Jónasson, varnarmaðurinn reyndi í liði KA, segir að það hafi verið slysalegt atvik þegar framherji Leiknis úr Reykjavík, Sólon Breki Leifsson, lenti á honum í bikarleik liðanna á Akureyrarvelli í gærkvöld, með þeim afleiðingum að Hallgrímur er væntanlega með slitið krossband í hné.

„Ég stóð í fótinn þegar hann lenti á mér og hnéð fór í yfirréttu. Strákurinn rann á mig og straujaði mig svona ofarlega. Það eru allar líkur á að krossbandið sé slitið en ég fæ það staðfest eftir að ég kemst í segulómun. Núna bíð ég eftir tíma," sagði Hallgrímur við mbl.is í dag.

Sólon Breki fékk gula spjaldið fyrir atvikið og nokkrum mínútum síðar fékk hann það rauða eftir að hafa lent á svipaðan hátt á Kristijan Jajalo markverði KA utan vítateigs Akureyrarliðsins. „Hann rann líka í það skipti, ég held að hann hafi ekki ætlað að tækla," sagði Hallgrímur Jónasson sem er 34 ára gamall og á að baki 333 deildaleiki á ferlinum, þar af 29 með KA eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku í árslok 2017, auk 16 A-landsleikja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert