Smit hjá karlaliði Stjörnunnar

Stjörnumenn í leik gegn Fylki. Þeir eiga að mæta KA …
Stjörnumenn í leik gegn Fylki. Þeir eiga að mæta KA á sunnudag. Eggert Jóhannesson

Leikmaður hjá karlaliði Stjörnunnar í knattspyrnu hefur greinst með smit af kórónuveirunni, samkvæmt heimildum mbl.is.

Leikmönnum yngri flokka hafa verið send skilaboð um að koma ekki á æfingasvæði félagsins á morgun vegna smits í röðum meistaraflokks karla.

Þá hefur leik hjá 3. flokki kvenna í Stjörnunni gegn Breiðabliki sem fram átti að fara um hádegið á morgun á velli Garðabæjarliðsins verið frestað af þessum sökum, samkvæmt heimildum mbl.is.

Karlalið Stjörnunnar á heimaleik gegn KA í Pepsi Max-deild karla á Samsung-vellinum síðdegis á sunnudaginn.

Uppfært kl. 23.56:

Í skilaboðum sem send hafa verið út til leikmanna segir að allar æfingar á svæði knattspyrnudeildar Stjörnunnar á morgun falli niður þar sem svæðið verði sótthreinsað. Stjarnan vinni náið með KSÍ og Almannavörnum og kappkosti að koma frekari upplýsingum á framfæri þegar þær liggi fyrir.

mbl.is