Ekki samskonar skimun og hjá liðum erlendis

Leikmenn Stjörnunnar eru í sóttkví þessa dagana.
Leikmenn Stjörnunnar eru í sóttkví þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að sú skimun sem nú er boðið upp á fyrir knattspyrnufólk í efstu deildum karla og kvenna sé ekki af sama toga og skipulögð skimun hjá knattspyrnufólki sem framkvæmd er víða erlendis.

Eins og fram kom á mbl.is í morgun hefur leikmönnum allra liða í úrvalsdeildum karla og kvenna ásamt starfsfólki, 2. flokki viðkomandi félaga og starfsfólki íþróttamannvirkja þeirra verið boðið að fara í skimun sem Íslensk erfðagreining mun framkvæma á næstu dögum.

Í stórum atvinnudeildum erlendis eru leikmenn skimaðir með reglulegu millibili en Víðir sagði á Twitter að hér væri þetta á annan veg.

„Það að velja knattspyrnufólk í tilteknum deildum til að fara í skimun er eingöngu einföld leið fyrir okkur að ná tilteknum fjölda einstaklinga á aldrinum 17-35 ára í skimun. Þetta er val hvers og eins og er ekki skipulögð skimun knattspyrnufólks eins og þekkist víða erlendis,“ sagði Víðir á Twitter fyrir stundu.

mbl.is