Alexander skoraði úrslitamarkið

Alexander Veigar Þórarinsson skoraði sigurmarkið á Ísafirði í dag.
Alexander Veigar Þórarinsson skoraði sigurmarkið á Ísafirði í dag. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Grindvíkingar knúðu fram sigur á Vestra, 3:2, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Olísvellinum á Ísafirði í dag en þetta var lokaleikur þriðju umferðar.

Stefán Ingi Sigurðarson kom Grindavík yfir um miðjan fyrri hálfleik en hann er nýkominn þangað í láni frá Breiðabliki. Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindvíkinga bætti við marki í byrjun síðari hálfleiks og staða þeirra orðin góð, 2:0.

Vestramenn gáfust hinsvegar ekki upp því Sigurður Grétar Benónýsson skoraði á 65. mínútu, 2:1, og Rafael Navarro jafnaði metin níu mínútum síðar.

Alexander Veigar Þórarinsson var hetja Grindvíkinga því hann skoraði sigurmark þeirra, 3:2, á 87. mínútu.

Grindvíkingar eru þá komnir með sex stig eftir þrjár umferðir og eru um miðja deild en Vestri er með eitt stig í níunda sætinu.

mbl.is