Gary Martin biður Leiknismenn afsökunar

Gary Martin
Gary Martin mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóknarmaðurinn Gary Martin hefur beðið Leiknismenn afsökunar eftir að hann skoraði með hendinni í 4:2-sigri ÍBV í leik liðanna í Breiðholtinu í gærkvöldi.

Eyjamenn eru með fullt hús stiga á toppi Lengjudeildarinnar í knattspyrnu eftir sigurinn umdeilda en staðan var 2:2 þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Martin kom þá Eyjamönnum yfir þegar hann fékk boltann í höndina af stuttu færi og hann bætti svo við öðru marki til að innsigla sigurinn.

Enski framherjinn, sem er nú búinn að skora fimm mörk í deildinni, birti færslu á Twitter í gærkvöldi og biður þar Leiknismenn afsökunar. Hann segist ekki stoltur af markinu en að hann sé þó ekki svindlari, hann hafi einfaldlega verið að bregðast við þegar boltinn kom til hans.

mbl.is