KA og Fjölnir áfram án sigurs

Fjölnismenn fagna jöfnunarmarki Orra Þórhallssonar í kvöld.
Fjölnismenn fagna jöfnunarmarki Orra Þórhallssonar í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Fjölnir eru enn án sigurs í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu en liðin gerðu 1:1 jafntefli á Greifavellinum á Akureyri fyrr í kvöld.

Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn í KA en þeir komust yfir eftir aðeins 54 sekúndur. Brynjar Ingi Bjarnason skallaði boltann í netið eftir góða hornspyrnu frá Hallgrími Mar, hans annað mark í sumar.

Fjölnismenn sem höfðu fyrir leikinn tapað fjórum leikjum í röð létu þetta þó ekki á sig fá. Eftir mark KA sóttu þeir í sig veðrið og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu oft fínustu sóknum. Þeir uppskáru jöfnunarmark á 21.mínútu, Orri Þórhallsson skoraði þá með skoti úr markteig eftir að Fjölnismenn höfðu átt tvær skottilraunir sem vörn KA náði að komast fyrir. Eftir markið var jafnræði með liðunum og staðan 1:1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var alls ekki mikið fyrir augað. Bæði lið spörkuðu hátt og langt og sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis eftir leik að seinni hálfleikurinn hafi verið hálfgerður loftbardagi. Fjölnismenn drógu sig til baka þegar leið á en KA-menn náðu ekki að skapa hættuleg færi. Varamaðurinn Sveinn Margeir Hauksson átti þó skot í stöngina á 90.mínútu leiksins en Fjölnismenn sluppu með skrekkinn. Lokatölur á Akureyri 1:1.

Spilamennska KA-manna í þessum leik var vægast sagt ekki góð. Miðjumenn KA komust ekki í takt við leikinn og einkenndist uppspilið af löngum sendingum sem varnarmenn Fjölnis réðu vel við. Uppskera KA í sumar er einungis þrjú stig eftir fimm leiki sem hljóta að teljast vonbrigði. Liðið mætir Gróttu á heimavelli næsta laugardag í gríðarlega mikilvægum leik.

Fjölnismenn fara frá Akureyri sem sáttara liðið. Spilamennskan var á köflum fín og tilkoma nýrra leikmanna virðist hafa góð áhrif. Péter Zachán lék sérstaklega vel í miðri vörn Grafarvogsliðsins. Þrátt fyrir það er liðið einungis með tvö stig en þeir geta tekið margt jákvætt úr leiknum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA 1:1 Fjölnir opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is