Náðum áttum eftir högg í byrjun

Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis og Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA …
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis og Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA fyrir aftan hann fylgjast með leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er ánægður með hópinn, við lentum í höggi í seinasta leik, töpuðum illa á heimavelli og það var mikilvægt að koma sterkir til baka,“ sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis eftir 1:1 jafntefli við KA í 6.umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta nú í kvöld.

„Menn þéttu sig saman. Það var virkilega góð liðsheild hérna í dag, mikil barátta og vinnusemi og það var það sem þurfti til þess að koma til baka úr því sem gekk á í síðasta leik.“

Fjölnismenn lentu undir í kvöld eftir aðeins 54.sekúndna leik. Aðspurður hvort hann væri sáttur með stigið sagði Ásmundur:

„Við vildum taka þau þrjú stig sem í boði voru en því miður þá er leikurinn varla byrjaður þegar við erum búnir að gefa þeim forgjöf. Það er brekka að vera kominn hingað og gefa þeim eitt mark í forskot. Á þeim tímapunkti getur maður verið þokkalega sáttur við jafntefli en fyrirfram vildum við taka öll stigin. og ef við hefðum ekki lekið þessu marki í byrjun þá hefðum við gert það.“

„Þetta var högg í byrjun og það tók nokkrar mínútur að ná áttum en eftir það fannst mér við hafa góð tök á leiknum í fyrri hálfleik. Svo kom seinni hálfleikurinn sem mér fannst vera loftbardagi eiginlega allan tímann.“

Eftir 6.umferðir eru Fjölnismenn með 2 stig á botni deildarinnar. Aðspurður um framhaldið sagði Ásmundur: 

„Við vissum út í hvað við vorum að fara. Við erum nýliðar og okkur var spáð botnsætinu af mörgum stöðum þannig það er ekkert sem kemur á óvart. Þetta er bara áskorun. Við erum búnir að ná að bæta aðeins í hópinn. Ég tel okkur vera með nógu góðan hóp til að halda okkur uppi og það er markmiðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert