Kærkominn sigur Breiðabliks eftir markaveislu

Kristinn Steindórsson horfir á eftir boltanum í net Skagamanna eftir …
Kristinn Steindórsson horfir á eftir boltanum í net Skagamanna eftir að hafa komið Breiðabliki í 2:0 í kvöld. mbl.is/Íris

Eftir fimm leiki í röð án sigurs gat Breiðablik loksins fagnað eftir 5:3-sigur á ÍA á heimavelli í ótrúlegum leik í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Fór Breiðablik fyrir vikið upp í þriðja sætið þar sem liðið er með 14 stig. 

Breiðablik byrjaði af miklum krafti og var sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu. Alexander Helgi Sigurðarson skoraði fyrsta markið á elleftu mínútu þegar hann kláraði í annarri tilraun eftir sendingu Kristins Steindórssonar. 

Árni Snær Ólafsson í marki ÍA horfir á eftir boltanum …
Árni Snær Ólafsson í marki ÍA horfir á eftir boltanum leka í markið. mbl.is/Íris

Kristinn sá sjálfur um að tvöfalda forskotið á 16. mínútu er hann rak endahnútinn á glæsilega sókn með fallegu skoti í fjærhornið. Gísli Eyjólfsson fór rétt áður virkilega illa með Jón Gísla Eyland og sendi á Kristinn sem kláraði vel. 

Blikar voru ekki hættir í fyrri hálfleik því danski framherjinn Thomas Mikkelsen bætti við öðru marki á 37. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar. Aðeins tveimur mínútum síðar bætti Kristinn við öðru marki sínu og fjórða marki Breiðabliks með fallegu skoti í stöng og inn. 

ÍA skapaði sér lítið sem ekki neitt í hálfleiknum, en þrátt fyrir það var staðan í hálfleik 4:1. Gekk Breiðabliki illa að koma boltanum í burtu eftir langt innkast og að lokum braut Kwame Quee á Viktori Jónssyni innan teigs. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók vítið og skoraði af öryggi. 

Leikmenn Breiðabliks umkringja Jón Gísla Eyland Gíslason í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks umkringja Jón Gísla Eyland Gíslason í kvöld. mbl.is/Íris

Seinni hálfleikur var ekki síður fjörugur. Hlynur Sævar Jónsson skoraði eftir hornspyrnu á 48. mínútu og minnkaði muninn í 4:2, en örskömmu síðar varð munurinn aftur þrjú mörk því Thomas Mikkelsen skoraði úr víti. 

Sem fyrr gáfust Skagamenn ekki upp og Viktor Jónsson minnkaði muninn í 5:3 á 54. mínútu eftir hræðileg mistök Antons Ara Einarssonar í marki Breiðabliks. Viktor meiddist hins vegar í þann mund sem hann skoraði og þurfti að fara af velli. 

Fleiri urðu mörkin ekki, þrátt fyrir fín færi beggja liða og Breiðablik fagnaði kærkomnum sigri. Er tapið það þriðja í röð hjá ÍA. 

Ótrúleg spilamennska í fyrri hálfleik

Breiðablik spilaði heilt yfir vel. Frammistaðan í fyrri hálfleik var sérstaklega góð og léku miðju- og sóknarmenn Breiðabliks sér að varnarmönnum ÍA sem lentu hvað eftir annað í miklum vandræðum. Jón Gísli Eyland Gíslason átti í miklum vandræðum í vörninni og hvað eftir annað komust Blikar upp vinstri kantinn og sköpuðu hættulegar stöður. 

Árni Snær Ólafsson í marki ÍA í háloftunum í kvöld.
Árni Snær Ólafsson í marki ÍA í háloftunum í kvöld. mbl.is/Íris

Höskuldur Gunnlaugsson, Alexander Helgi Sigurðarson og Kristinn Steindórsson fengu að leika sér og nánast gera það sem sýndist og það er ekki góðs viti fyrir andstæðinginn að gefa þeim slíkt pláss. Breiðablik skoraði fjögur í fyrri hálfleik, en mörkin hefðu getað orðið enn fleiri. 

Skagamenn gefast ekki upp

Skagamenn voru gjörsamlega yfirspilaðir í fyrri hálfleik, en fengu smá líflínu með marki úr vítaspyrnu. Það gaf liðinu aukinn kraft og var allt annað að sjá liðið í seinni hálfleik. Blikarnir gátu leyft sér að slaka á og með smá heppni hefði ÍA jafnvel getað minnkað muninn í eitt mark og búið til mikla spennu. 

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA dó ekki ráðalaus á bekknum og hann hreyfði til liðinu sem virkaði vel. Marcus Jóhansson fór úr vörninni og yfir á miðjuna og við það batnaði leikur ÍA til muna. Breiðablik var hins vegar sterkari aðilinn og var sigurinn verðskuldaður. 

Kristinn Steindórsson skorar fyrir Breiðablik í kvöld.
Kristinn Steindórsson skorar fyrir Breiðablik í kvöld. mbl.is/Íris

ÍA hefur tapað þremur leikjum í röð og fengið á sig tólf mörk. Skagamenn verða að þétta raðirnar töluvert til að byrja að safna stigum á nýjan leik eftir frekar góða byrjun. Skagamenn mæta Fjölni í næsta deildarleik og tapi liðið þeim leik, eru fallsætin hættulega nálægt. 

Fer Brynjólfur aftur í byrjunarliðið? 

Brynjólfur Andersen Willumsson hefur mikið verið á milli tannanna á fólki. Skiptast spekingar á að kalla hann ofmetinn og svo einn besta leikmann deildarinnar. Hann var ekki með í kvöld þar sem hann tók út leikbann. Án hans var Breiðablik hættulegra í sókninni og því stór spurning hvor hann komist aftur í byrjunarliðið strax í næsta leik. Þá var Oliver Sigurjónsson einnig á bekknum og miðjan hjá Breiðabliki keyrði yfir andstæðinganna. Oliver gæti þurft að sitja meira á bekknum.

Þá gaf Anton Ari Einarsson mark og var nálægt því að gefa fleiri. Á það að vera einn af styrkleikum Antons hve góður hann er með löppunum, en hann hefur alls ekki sýnt það hingað til í sumar og virðist alltaf skapast hætta þegar varnarmenn Blika gefa til baka á markvörðinn. Hann átti stóra sök í markinu sem HK skoraði í Kópavogsslagnum í síðustu umferð og hann verður að bæta sig. 

Það er hinsvegar mun meira jákvætt en neikvætt hægt að segja um Breiðablik í leiknum og miðjan og sóknin er ein sú allra besta hér á landi. Thomas Mikkelsen er orðinn besti hreinræktaði framherjinn í deildinni og þegar kantmennirnir og miðjumennirnir eru í stuði fær Breiðablik fullt af færum og það eru næg gæði þar á bæ að nýta þau og skora mörk, eins og sást í kvöld. Eftir fimm leiki í röð án sigurs, gæti þessi leikur verið vendipunktur hjá Blikum og byrjunin á einhverju góðu. 

Breiðablik 5:3 ÍA opna loka
90. mín. Kwame Quee (Breiðablik) á skot sem er varið Færið þröngt og Árni er vel staðsettur og ver þetta.
mbl.is