Fyrsti sigur Húsvíkinga var dramatískur

Daníel Már Hreiðarsson skorar sigurmarkið dramatíska.
Daníel Már Hreiðarsson skorar sigurmarkið dramatíska. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Völsungur vann sinn fyrsta sigur í 2. deild karla í fótbolta í kvöld er liðið lagði Víði 2:1 á heimavelli. Kom sigurmarkið á Húsvíkurvelli í uppbótartíma. 

Bjarki Baldvinsson kom Völsungi yfir á 18. mínútu og var staðan 1:0 þangað til reynsluboltinn Hólmar Örn Rúnarsson jafnaði á 62. mínútu. Það stefndi allt í 1:1-jafntefli þegar varamaðurinn Daníel Már Hreiðarsson skoraði sigurmark í uppbótartíma og þar við sat. 

Sigurinn gæti reynst Völsungi afar mikilvægur en liðið er enn í botnsætinu með fjögur stig, tveimur stigum frá Víði sem er í tíunda sæti, síðasta örugga sæti deildarinnar. 

mbl.is