FH fær heimaleik - Breiðablik heimsækir Rosenborg

Daníel Hafsteinsson og Kári Árnason verða í Evrópudeildinni í sumar.
Daníel Hafsteinsson og Kári Árnason verða í Evrópudeildinni í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dregið var til fyrstu umferðar í undankeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu í höfuðstöðvum sambandsins í Sviss í morgun. FH, Breiðablik og Vík­ing­ur eru full­trú­ar Íslands í keppninni og nú ligg­ur fyr­ir hvaða liðum þau mæta.

FH er eina íslenska liðið sem var í efri styrkleikaflokki en Hafnfirðingar fá heimaleik, taka á móti slóvakís­ka liðinu Dunaj­ská Streda sem endaði í 3. sæti í efstu deild á síðustu leiktíð. Tímabilið í Slóvakíu er nýbyrjað og er liðið búið að vinna sinn eina leik til þessa.

Breiðablik fer til Noregs og mætir þar Rosenborg, sem hafnaði í 2. sæti A-deildarinnar heima fyrir á síðustu leiktíð. Rosenborg mætti Völsurum í eftirminnilegum einvígi í keppninni fyrir tveimur árum en Valsarar voru þá hársbreidd frá því að slá út norska stórliðið. Breiðablik mætti Rosenborg árið 2011 og tapaði þá 5:0 í Þrándheimi en vann seinni leikinn 2:0 á Kópavogsvelli.

Víkingar úr Reykjavík heimsækja Olimpija Lju­blj­ana í Slóveníu sem hafnaði í þriðja sæti í úrvalsdeildinni þar í landi á síðustu leiktíð. Bæði Breiðablik og Víkingur voru í neðri styrkleikaflokki.

Leik­ir ís­lensku liðanna þriggja eiga að fara fram 27. ág­úst. Báðir útileikirnir verða leiknir fyrir luktum dyrum en. Óvíst er hvernig fyrirkomulagið á leik FH verður, en engir knattspyrnuleikir eru leyfðir á Íslandi sem stendur, gildir það til 13. ágúst og verður staðan þá endurmetin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert