Ljóst hverjum FH, Breiðablik og Víkingur geta mætt

Daníel Hafsteinsson og Kári Árnason eru á leið í Evrópukeppni …
Daníel Hafsteinsson og Kári Árnason eru á leið í Evrópukeppni með FH og Víkingi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Á morgun, mánudag, verður dregið til fyrstu umferðar í undankeppni Evrópudeildar UEFA í fótbolta þar sem FH, Breiðablik og Víkingur eru fulltrúar Íslands og nú liggur fyrir hvaða liðum þau gætu mætt.

FH er eina íslenska liðið í efri styrkleikaflokki í drættinum. Þrír mótherjar koma til greina, finnsku liðin Ilves og Honka og slóvakíska liðið Dunajská Streda.

Breiðablik fer annaðhvort til Skotlands eða Noregs. Kópavogsliðið getur mætt Aberdeen eða Motherwell frá Skotlandi eða Rosenborg frá Noregi.

Víkingur fer til Slóveníu, Færeyja eða Gíbraltar. Mestar líkur eru á að það verði Slóvenía en bæði Maribor og Olimpija Ljubljana koma til greina. Þriðji möguleikinn er sigurvegarinn í leik St. Joseph frá Gíbraltar og B36 frá Færeyjum sem mætast í forkeppni 20. ágúst.

Leikir íslensku liðanna þriggja eiga að fara fram 27. ágúst og aðeins er um einn leik að ræða hjá hverju þeirra, annaðhvort á heimavelli eða útivelli.

mbl.is