Dramatík í lokin er Valur vann ÍA

Patrick Pedersen skorar sitt annað mark og kemur ÍA í …
Patrick Pedersen skorar sitt annað mark og kemur ÍA í 3:0. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Valur vann 4:2-sigur á ÍA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í fjörugum leik á Akranesi í dag. Gestirnir komust snemma í þriggja marka forystu en engu að síður var mikil dramatík í lokin er heimamenn vildu vítaspyrnu sem hefði getað dugað til að jafna leikinn.

Valsarar voru búnir að vinna sjö deildarleiki í röð fyrir viðureignina í dag og ekki tapað síðan 3. júlí en þá steinlágu þeir einmitt gegn Skagamönnum, 4:1 á Hlíðarenda. Hafi einhverjir stuðningsmenn heimamanna gert sér vonir um annað eins í dag, urðu þeir snarlega fyrir vonbrigðum.

Patrick Pedersen kom Völsurum yfir strax á 6. mínútu eftir agalegan klaufaskap í vörn heimamanna. Árni Snær Ólafsson markvörður þrumaði knettinum í samherja og þaðan féll hann fyrir danska framherjann sem skorað í autt markið.

Sigurður Egill Lárusson bætti svo við marki á 23. mínútu. Hannes Þór Halldórsson spyrnti þá boltanum fram úr markspyrnu, Óttar Bjarni Guðmundsson misreiknaði sig og skallaði boltann til baka í átt að eigin marki og Sigurður fékk hann, sloppinn einn í gegn, og hann skoraði örugglega.

Pedersen bætti svo við þriðja markinu fyrir hálfleik eftir gott samspil við Kristinn Frey Sigurðsson. Staðan orðin 3:0 á 31. mínútu og heimamenn í klandri. Það virtist nákvæmlega ekkert benda til annars en að Valsarar ættu sigurinn vísan þegar leikmenn gengu til búningsklefa í hálfleik en heimamenn færðu sig hressilega upp á skaftið strax eftir hlé.

Þeir minnkuðu svo muninn um stundarfjórðungi fyrir leikslok, Brynjar Snær Pálsson renndi knettinum í markið af stuttu færi eftir klafs inn í vítateig Valsara. Gísli Laxdal Unnarsson blés svo spennu í lokamínúturnar þegar hann skoraði undir Hannes í markinu á 80. mínútu.

Allt varð svo vitlaust á lokamínútu venjulegs leiktíma. Ekki þó af fögnuði af hálfu heimamanna sem voru allt annað en sáttir með dómara leiksins, Guðmund Ársæl Guðmundsson. Skagamenn vildu vítaspyrnu þegar Rasmus Christiansen virtist klárlega handleika knöttinn inn í vítateig en ekkert var dæmt. Skömmu síðar innsiglaði svo Kaj Leo í Bartalsstovu sigurinn fyrir Valsara þegar hann skoraði af löngu færi í hraðri sókn, yfir Árna í markinu. Lokatölur 4:2 fyrir Val.

Kaj Leo i Bartalsstovu býr sig undir að skjóta á …
Kaj Leo i Bartalsstovu býr sig undir að skjóta á mark ÍA af meira en 40 metra færi þar sem hann skoraði fjórða markið í lokin. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

„Aðstoðardóm­ar­inn kall­ar á dóm­ara leiks­ins þegar Vals­ar­inn ver bolt­ann með hend­inni inn í teig í rest­ina. Hann kall­ar á hann ít­rekað að dæmi víti en Guðmund­ur Ársæll neitaði því. Það fannst mér sorg­legt og eig­in­lega óskilj­an­legt,“ sagði hundsvekktur Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is en tilfinningin á Akranesi í leikslok var sú að heimamenn hafi verið rændir stigi. Þeir voru undir á flestum sviðum fótboltans í fyrri hálfleik og virtust hreinlega ekki eiga möguleika í toppliðið en sýndu klærnar eftir hlé og það án lykilmanna.

Þrír mikilvægustu menn ÍA voru allir teknir af velli á 70. mínútu í stöðunni 3:0; þeir Stefán Teitur Þórðarson, Steinar Þorsteinsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson. Væntanlega átti að hvíla þá fyrir mikilvægan leik gegn Gróttu á sunnudaginn en mennirnir sem komu inn á léku hlutverk í ágætis tilraun til að snúa taflinu við. Einn þeirra, Gísli Laxdal Unnarsson skoraði seinna mark Skagamanna.

Hjá Völsurum er niðurstaðan meira af því sama. Sigurinn er sá áttundi í röð í deildinni og er Valur nú með 34 stig eftir 14 leiki. FH-ingar eru næstir með 26 stig eftir 13 leiki og þá hefur Stjarnan 24 stig eftir tólf leiki. Valsarar eiga næst Stjörnuna í Garðabænum á sunnudaginn. Vinnist níundi sigurinn þar, er erfitt að ímynda sér nokkurt lið ná Hlíðarendaliðinu að stigum.

ÍA 2:4 Valur opna loka
90. mín. Kaj Leo i Bartalsstovu (Valur) skorar 2:4 - Og Valsarar klára leikinn. Skagamenn senda nær alla fram í aukaspyrnu í uppbótartíma, Valsarar komast hins vegar í skyndisókn og Kaj Leo, örugglega 35 metra frá marki vippar í autt netið. Árni var ekki búinn að skila sér til baka í markið.
mbl.is