Tíunda jafntefli KA í snjóhríð á Akureyri

Arnþór Ari Atlason skorar mark HK með skalla í leiknum …
Arnþór Ari Atlason skorar mark HK með skalla í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og HK áttu fyrsta leik dagsins í Pepsi-Max deild karla í fótbolta en flautað var til leiks kl. 16 á Greifavellinum á Akureyri. Liðin skildu jöfn, 1:1.

Skítakuldi var allan leikinn, um 5°C hiti og norðan gjóla. Leikmenn létu það ekkert á sig fá og spiluðu ágætis bolta við leiðinlegar aðstæður. Það þarf að klára mótið og jú haustið er löngu komið. 

Sigur hjá hvoru liði myndi endanlega losa það frá fallsvæðinu og stytta bilið í liðið í 6. sætinu. 

Liðin voru nokkuð lengi í gang og erfiðlega gekk að skapa almennileg marktækifæri. HK náði þó marki strax eftir kortérs leik. Þá átti Hörður Árnason fínustu fyrirgjöf inn á markteig KA. Þangað skaust Arnþór Ari Atlason og stangaði boltann í fjærhornið á marki KA. Heimamenn tóku við sér skömmu eftir þetta mark og náðu upp fínni pressu á köflum en sköpuðu sama og ekkert. Leikmenn HK voru hættulegri í þau skipti sem þeir sóttu en fleiri mörk voru ekki skoruð fyrir hlé og staðan 0:1. 

Strax í hálfleik fór að snjóa nokkuð hressilega í norðanáttinni og herti vindinn í leiðinni. HK-ingar fengu því él í fangið í byrjun seinni hálfleiks. 

Áfram var það KA sem sótti meira og áfram var lítið um færi og þau bestu fengu gestirnir. Þéttur og agaður varnarleikur HK virtist ætla að skila þeim sigri en á lokakaflanum fengu KA-menn einhverja aukaorku. Almarr Ormarsson skoraði gull af marki þegar tíu mínútur lifðu. Hann setti boltann með vinstrifótar-slummu, beint upp í skeytin frá vítateigsboganum. Fyrsta mark Almars í sumar. KA reyndi að kreista út sigurmark en í blálokin átti HK góðan kafla en allt kom fyrir ekki og sanngjarnt jafntefli varð því niðurstaðan. Tíunda jafntefli KA i deildinni í sumar og nú þarf að fara að fletta upp í annálum hvaða lið á met í jafnteflisleikjum í tólf liða deild. 

KA kom sér upp fyrir Víking í bili, er með 16 stig, en HK er komið með 19 stig, sæti ofan við KA. 

KA 1:1 HK opna loka
90. mín. Jón Arnar Barðdal (HK) fer af velli
mbl.is