Óttar búinn að skrifa undir í Feneyjum

Óttar Magnús Karlsson fagnar marki fyrir Víking.
Óttar Magnús Karlsson fagnar marki fyrir Víking. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttar Magnús Karlsson, markahæsti leikmaður Víkings í úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu tímabili, hefur gengið frá samningi við ítalska félagið Venezia.

Félagið greindi frá þessu á vef sínum í dag.

Venezia, eða Feneyjar eins og borgin er jafnan kölluð á íslensku, leikur í B-deildinni og fékk í sínar raðir Bjarka Stein Bjarkason frá ÍA fyrir skömmu.

Óttar er 23 ára gamall, uppalinn Víkingur, og hefur reynt nokkrum sinnum fyrir sér erlendis og leikið með unglingaliði Ajax í Hollandi og síðan norska liðinu Molde og sænsku liðunum Trelleborg og Mjällby. Hann er langmarkahæsti leikmaður Víkings á þessu ári og skoraði níu mörk í fjórtán leikjum fyrir liðið í úrvalsdeildinni. Hann er nú orðinn fimmti til sjötti markahæsti leikmaður Víkings í efstu deild með 21 mark þó hann hafi aðeins spilað 42 leiki með félaginu í deildinni.

Þá hefur Óttar leikið níu A-landsleiki og skorað í þeim tvö mörk, sem og 38 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Venezia hafnaði í 11. sæti af 20 liðum í ítölsku B-deildinni á síðasta tímabili. Félagið státar af einum bikarmeistaratitli, frá árinu 1941, og lék mikið í tveimur efstu deildum Ítalíu á árum áður. Félagið varð gjaldþrota í þrígang frá 2002 til 2015 og þurfti í öll skiptin að fara niður um deildir. Liðið komst upp úr D-deildinni árið 2017 og var komið í B-deild 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert