Leikið við Ítalíu í nóvember

Sveinn Aron Guðjohnsen er markahæstur íslenska liðsins í undankeppninni með …
Sveinn Aron Guðjohnsen er markahæstur íslenska liðsins í undankeppninni með fjögur mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta leikur við jafnaldra sína frá Ítalíu þann 12. nóvember næstkomandi hér á landi í undankeppni EM sem fram fer á næsta ári í Ungverjalandi og Slóveníu. 

Átti leikurinn að fara fram fyrr í mánuðinum en var frestað vegna kórónuveirusmita hjá ítalska liðinu. Er leikurinn afar mikilvægur í riðlinum þar sem fjögur lið eru í mikilli toppbaráttu fyrir lokasprettinn. 

Ítalía er á toppi riðilsins með 16 stig eftir sjö leiki og Írland með jafnmörg stig eftir átta leiki. Svíþjóð er í þriðja sæti með 15 stig eftir átta leiki og Ísland með 15 stig eftir sjö leiki. Ísland færi því upp í toppsæti riðilsins með sigri á Ítalíu. 

Ísland á sömuleiðis eftir útileiki við Írland og Armeníu. Er leikið á Írlandi 15. nóvember og í Armeníu 18. nóvember. 

Sigurlið riðilsins fer beint á EM næsta sumar og fimm lið af níu í öðru sæti undanriðlanna komast líka þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert