Trúin á sigur það mikilvægasta fyrir leikinn

Íslenska liðið verður án Dagnýjar Brynjarsdóttir gegn Svíþjóð en hún …
Íslenska liðið verður án Dagnýjar Brynjarsdóttir gegn Svíþjóð en hún er að glíma við meiðsli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Svíþjóð á Ullevi-vellinum í Gautaborg í undankeppni EM í dag.

Íslenski hópurinn hélt til Svíþjóðar á þriðjudaginn í síðustu viku og hefur því haft góðan tíma til þess að undirbúa sig fyrir verkefnið.

Þá er liðið fullt sjálfstrausts þessa dagana eftir frábæra spilamennsku gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM í september en stelpurnar unnu þá 9:0-stórsigur gegn Lettum hinn 17. september og gerðu svo 1:1-jafntefli gegn Svíþjóð 22. september. Báðir leikirnir fóru fram hér á landi á Laugardalsvelli.

Það voru yngstu leikmenn Íslands sem stálu fyrirsögnunum eftir leikina tvo en þær eru allar fæddar á árunum 2000 til 2001 og hafa fengið viðurnefnin aldamótabörnin í fjölmiðlum eftir frammistöðu sína í september.

Stjarna Sveindísar Jane Jónsdóttur skein einna skærast en hún lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Lettum, skoraði tvívegis, og þá lagði hún upp mark Elínar Mettu Jensen gegn Svíþjóð.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék sína fyrstu mótsleiki með liðinu en hún var á skotskónum gegn Lettum, ásamt því að leggja upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína.

Þá lék Alexandra Jóhannsdóttir landsleiki númer sex og sjö gegn Lettum og Svíum en þrátt fyrir það spilaði hún eins og hún væri á meðal reyndustu leikmanna liðsins, svo örugg var hún á boltanum.

Allar þrjár leika með Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, en það má fastlega gera ráð fyrir því að þær verði allar í byrjunarliðinu gegn Svíþjóð í dag.

Tölfræðin hliðholl Svíum

Íslenska liðið hefur ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum gegn sænska liðinu.

Alls hafa liðin mæst sextán sinnum frá árinu 1982 og hefur Svíþjóð tólf sinnum fagnað sigri, tvívegis hafa liðin gert jafntefli og tvívegis hefur íslenska liðið farið með sigur af hólmi.

Ísland vann Svíþjóð 12. mars 2014 á Algarve-mótinu þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu mörk Íslands í 2:1-sigri. Það var síðasti leikur liðanna þar til í september þannig að Svíar hafa ekki náð sigri í tveimur síðustu leikjum þjóðanna.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »