Ef hann bæri ekki nafnið Guðjohnsen

Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliðinu í kvöld.
Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliðinu í kvöld. AFP

Sveinn Aron Guðjohnsen lék sinn fyrsta A-landsleik í fótbolta í kvöld er hann var í byrjunarliði Íslands gegn Liechtenstein í undankeppni HM 2022. Sveinn var valinn fram yfir Jón Daða Böðvarsson og Hólmbert Aron Friðjónsson. 

„Jón Daði var búinn að skila inn tveimur erfiðum vöktum og var búinn að standa sig mjög vel. Það var hluti af þessari álagsstýringu. Ákveðnir leikmenn voru svo í banni og meiðslum. Valið var á milli Hólmberts og Sveins og við töldum að þessi leikur hentaði Sveini betur en Hólmberti. Það er ekkert annað þar á bak við,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi eftir leik. 

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari landsliðins, er faðir Sveins og hefur ákvörðunin um að gefa Sveini tækifæri í byrjunarliðinu verið gagnrýnd vegna þessa. „Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er mjög erfið staða, sérstaklega fyrir Svein Aron. Það hefði verið eðlilegt fyrir hvaða framherja sem er að koma úr U21 árs lokamóti þar sem hann spilaði vel og skoraði og inn í A-landsliðið. Ef hann bæri ekki nafnið Guðjohnsen væri þetta mjög eðlilegt.

Það er mikil pressa á Sveini með það. Ég, Lars og Eiður stillum upp okkar liðum fyrir þessa leiki en ég sagði við Eið að hann fengi ekki að velja framherja í þennan leik. Það er ekki til að verja Svein Aron heldur þarf að útiloka tilfinningar í þessu og það er ekki hægt að útiloka föðurtilfinningar. Að mínu mati var þetta rétt ákvörðun fyrir þennan leik,“ sagði Arnar. 

En hvað er það sem Sveinn hefur frekar fram að færa en Hólmbert? „Ef við horfum á þessa tvo leikmenn þá eru ákveðnir eiginleikar, þeir eru stórir og sterkir en Sveinn Aron er aðeins sterkari í djúpu hlaupunum. Hólmbert er betri í að halda boltanum og leggja hann til hliðar. Sveinn Aron þarf að vinna í þeim hluta. Við vildum fá djúpu hlaupin í dag og þar liggja styrkleikar Sveins,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert