Keflavík fær liðsstyrk að utan

Natasha Anasi og liðsfélagar hennar í Keflavík hafa fengið öflugan …
Natasha Anasi og liðsfélagar hennar í Keflavík hafa fengið öflugan liðsstyrk fyrir komandi átök. mbl.is/Hari

Keflavík hefur fengið öflugan liðsstyrk fyrir komandi átök í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í sumar.

Bandaríkjakonan Abby Carchio hefur samið um að leika með liðinu út keppnistímabilið og þá hefur taílenska landsliðskonan Tiffany Sornpao einnig skrifað undir samning við Keflvíkinga.

Carchio, sem er 23 ára gamall miðjumaður, kemur til Keflavíkur frá litháensku meisturunum í Gintra en hún lék áður með Brown í bandaríska háskólaboltanum.

Sornpao er markvörður sem kemur til Keflavíkur úr bandaríska háskólaboltanum en hún er 22 ára gömul og hefur leikið með Kennesaw State-háskólanum frá 2017.

Þá á hún að baki fjóra A-landsleiki fyrir Taíland en hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2019.

Keflvíkingar eru nýliðar í efstu deild en liðið hafnaði í öðru sæti 1. deildarinnar, Lengjudeildarinnar, síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert