Öflugur liðsstyrkur í Hafnarfjörðinn

Ágúst Eðvald Hlynsson í leik með Víkingum veturinn 2020.
Ágúst Eðvald Hlynsson í leik með Víkingum veturinn 2020. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnumaðurinn Ágúst Eðvald Hlynsson mun leika með FH í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, fyrri hluta Íslandsmótsins.

Þetta staðfesti Horsens í Danmörku, félagslið Ágústs, á heimasíðu sinni í dag en sóknarmaðurinn mun leika sem lánsmaður með FH til 1. júlí.

Ágúst, sem er 21 árs gamall og uppalinn hjá Breiðabliki, gekk til liðs við Víking í Reykjavík árið 2019 eftir að hafa leikið með unglingaliðum Norwich og Brøndby.

Hann á að baki 43 leiki í efstu deild fyrir Víking og Breiðablik þar sem hann hefur skorað átta mörk en hann gekk til liðs við Horsens í október á síðasta ári en Hlynur Svan Eiríksson, faðir Ágústs, lék einnig með FH á sínum tíma.

FH hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en Logi Ólafsson stýrir liðinu á komandi keppnistímabili með Davíð Þór Viðarsson sér til aðstoðar.

mbl.is