Hafnaði tilboði Víkings

Víkingar fá ekki Rasmus Nissen.
Víkingar fá ekki Rasmus Nissen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danski knattspyrnumaðurinn Rasmus Nissen hefur hafnað því að fara á láni frá OB í Óðinsvéum til Víkings í Reykjavík.

Nissen kom til reynslu hjá Víkingum í síðasta mánuði og vakti þá mikla athygli en hann skoraði þrennu í æfingaleik gegn HK.

Hann staðfesti við bold.dk í dag að hann hefði hafnað tilboði Víkinga. „Ég spilaði frábæran æfingaleik á Íslandi og það stóð til að ég myndi æfa með liðinu í vikunni á eftir og sýna mig betur. En þeir komu til mín eftir leikinn og sögðust hafa séð nóg, þannig að ég flaug heim til þess að hugsa málið,“ segir Nissen.

„Ég ákvað að hafna þessu tækifæri og mér finnst ég fyrst og fremst ekki vera tilbúinn til að taka þetta skref. Annars vegar að fara til annars lands og hinsvegar að fara bara á einhvern tveggja til þriggja mánaða samning. Ég vonast til þess að frá og með sumrinu verði ég lánaður  eða seldur til annars félags,“ segir Nissen ennfremur, en eftir heimkomuna var hann sendur á ný á æfingar með U19 ára liði OB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert