Meistaraefnin stálheppnar gegn Stjörnunni

Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar og Elín Metta Jensen í …
Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar og Elín Metta Jensen í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur slapp með skrekkinn þegar liðið tók á móti Stjörnunni í 1. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Vals en Garðbæingar voru síst lakari aðilinn og hefðu með smá heppni getað stolið sigrinum.

Ída Marín Hermannsdóttir kom Valskonum yfir á 18. mínútu eftir hornspyrnu Önnu Rakel Pétursdóttur.

Mist Rúnarsdóttir skallaði þá boltann í átt að marki og Ída var rétt kona á réttum stað og ýtti boltanum yfir línuna af stuttu færi.

Anna Rakel Pétursdóttir tvöfaldaði forskot Valskvenna á 56. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn Stjörnunnar.

Garðbæingar reyndu að spila út frá marki, Sóley Guðmundsdóttir átti skelfilega sendingu út úr vörninni, sem hafnaði beint í löppunum á Önnu Rakel.

Hún lét vaða af þrjátíu metra færi og boltinn söng í netinu en Chanté Santiford í marki Stjörnunnar var komin vel út úr marki sínu til þess að taka þátt í uppspili Garðbæinga.

Hildigunnar Ýr Benediktsdóttir minnkaði muninn fyrir Stjörnuna á 77. mínútu með frábæru einstaklingsframtaki en hún fór þá illa með varnarmenn Vals og renndi boltanum á milli fóta Söndru Sigurðardóttur í marki Vals úr þröngu færi.

Valur fer með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar í 3 stig en Stjarnan er án stiga í sjöunda sæti deildarinnar.

Ásdís Karen Halldórsdóttir sækir að marki Stjörnunnar á Hlíðarenda.
Ásdís Karen Halldórsdóttir sækir að marki Stjörnunnar á Hlíðarenda. mbl.is/Árni Sæberg

Fátt jákvætt í leik Vals

Valskonur voru ólíkar sjálfum sér í leiknum og það var ekki sami taktur í liðinu og í öllum leikjum undirbúningstímabilsins.

Liðið var að klikka á einföldum sendingum, eitthvað sem hefur ekki verið vandamál hjá liðinu í ansi mörg ár.

Þá gekk boltinn illa og hægt á milli leikmanna liðsins og þær voru lengi að snúa vörn í sókn.

Það var skrekkur í Garðbæingum til að byrja með en eftir að þær lentu 0:1-undir strax á 18. mínúnút kom ákveðin ró yfir liðið.

Eins skrítið og það hljómar virtist leikmönnum liðsins líða betur með að vera marki undir og boltinn fór að ganga miklu betur á milli manna.

Þá héldu þær sig við sama leikplan allan leikinn, það er að segja að halda í boltann og spila út frá aftasta manni, sem gekk mjög vel.

Það eina jákvæða sem Valskonur geta tekið með sér út úr leiknum eru stigin þrjú og það er alltaf gott að byrja á sigri.

Garðbæingar geta svo sannarlega verið svekktir með að fá ekkert út úr leiknum enda fengu þær svo sannarlega færin til að jafna metin og jafnvel stela sigrinum.

Valskonur þurfa að gera miklu betur ef þær ætla sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn en á sama tíma geta Garðbæingar farið bjartsýnir inn í sumarið eftir þessa frammistöðu.

Valur 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Hildigunn­ur Ýr Bene­dikts­dótt­ir (Stjarnan) á skot sem er varið Hildigunnur með flott skot utan teigs en Sandra ver þetta. Garðbæingar að þrýsta vel þessar síðustu mínútur.
mbl.is