Kannski orðnir stressaðir á heimavelli

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var skiljanlega ekki sáttur eftir 1:3-tap sinna manna gegn KA á heimavelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. KA komst í 2:0 í fyrri hálfleik, áður en KR minnkaði muninn í 2:1 fyrir leikhlé. Þrátt fyrir mikla pressu KR-inga framan af í seinni hálfleik var það KA sem skoraði fjórða og síðasta mark leiksins undir lokin. 

„Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ byrjaði Rúnar í löngu fyrsta svari í samtali við mbl.is eftir leik. „KA stjórnaði ferðinni, spilaði góðan fótbolta og við náðum ekki að klukka þá eða setja nægilega mikla pressu á þá. Staðan var þá allt í einu orðin 2:0 og við ekki búnir að vera þátttakendur í leiknum að neinu ráði. Við vorum öflugir síðasta kortérið í fyrri hálfleik og settum mikla pressu á þá þegar við þorðum loksins að fara framar og pressa á þá. Við minnkum muninn og fórum þokkalega sáttir inn í hálfleikinn í stöðunni 2:1.

Við vissum að seinni hálfleikurinn gæti snúist um að við þyrftum að vera þolinmóðir til að búa okkur til færi til að reyna að jafna. Við náum að halda uppi sömu pressu og byrjum seinni hálfleikinn mjög vel. Við pressuðum á þá alveg niður í vítateig og eigum haug af fyrirgjöfum. Við nýtum hins vegar þau færi sem gefast, sem voru ekki sérstaklega stór, ekki nægilega vel. Við förum svo að flækja leikinn og spila allt of mikið af löngum sendingum í staðinn fyrir að reyna að spila okkur með þolinmæði í gegnum þeirra varnarmúr sem var þéttur. Þá er alltaf hætta á skyndisóknum og upp úr einni svoleiðis skora þeir. Þá er þetta búið,“ sagði Rúnar. 

KR vann góðan 2:0-sigur á Breiðabliki í fyrstu umferð, en náði alls ekki að fylgja því eftir framan af í kvöld. „Þetta er allt öðruvísi lið sem við erum að spila á móti og allt öðruvísi taktík. Sú varnarvinna sem ég lagði upp með var ekki alveg að ganga nægilega vel upp í byrjun. KA-menn leystu það mjög vel og spiluðu mjög vel út úr sínum stöðum. Þeir voru góðir, eins og við áttum von á. Við héldum að við myndum ná upp meira tempói í fyrri hálfleik en við vorum seinir í gang. Við fórum ekki af stað fyrr en staðan var orðin 2:0. Kannski var eitthvert stress því okkur gekk illa hérna á heimavelli í fyrra, sem er svolítið skrítið og við byrjum illa hér núna. Við verðum að bæta okkur á heimavelli.“

Kennie Chopart kom boltanum í netið undir lok leiksins en markið stóð ekki þar sem Einar Ingi Jóhannsson dómari dæmdi brot. „Ég veit því miður ekki á hvað var dæmt, en Einar hlýtur að hafa séð eitthvað. Gaui Bald, sem dæmt var á, vissi ekki á hvað var dæmt. Hann sagðist hafa bakkað og klesst á leikmanninn þeirra og Einar dæmir. Það breytir ekki öllu,“ sagði Rúnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert