Fyrsti byrjunarliðsleikurinn í langan tíma: „Næstum tvö ár“

Þórarinn Ingi Valdimarsson í leiknum í dag.
Þórarinn Ingi Valdimarsson í leiknum í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Þórarinn Ingi Valdimarsson lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Stjörnuna í að verða tvö ár þegar hann spilaði allan leikinn í 2:1 sigri liðsins gegn HK á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld.

„Þetta var bara baráttuleikur. Mér fannst við vera mjög góðir í fyrri hálfleik. Við settumst aðeins aftur og vorum að verja forystuna aðeins í seinni hálfleik en vorum bara þéttir og náðum að verjast vel. En þetta eru þrjú stig, það er það sem við vildum og erum sáttir við það,“ sagði Þórarinn Ingi í samtali við mbl.is eftir leik.

Eftir að hafa leitt 2:0 í hálfleik minnkaði HK muninn á 73. mínútu, þegar Stefan Alexander Ljubicic skoraði. Þórarinn Ingi viðurkenndi að það hafi þá farið smá um Stjörnumenn, sem honum þótti þó leysa mjög vel úr stöðunni.

„Já auðvitað kemur það alltaf þegar maður er 2:0 yfir, að fá 2:1 í staðinn fyrir að setja þriðja markið sjálfir. Þá er smá hætta. Þeir settu Stefan upp á topp, sem er stór og stæðilegur og unnu svolítið í kringum hann en mér fannst við bara díla mjög vel við það.“

Ógeðslega gaman

Sem áður segir er Þórarinn Ingi snúinn aftur eftir afar erfið og langvinn meiðsli, þar sem hann missti til að mynda af öllu síðasta tímabili.

„Þetta eru að verða næstum tvö ár en þetta voru 90 mínútur í kroppinn í dag sem er ógeðslega gaman. Mér líður furðuvel.

Maður er svolítið skynsamur í þessu og þeir hafa stýrt álaginu á mér vel undanfarnar vikur þar sem ég hef fengið að taka smá þátt í leikjum. En núna var fyrsti leikurinn í byrjunarliði og það er bara gott og gaman að vera kominn til baka,“ sagði hann.

Spurður hvort líkaminn væri orðinn fyllilega góður sagði Þórarinn Ingi:

„Já ég myndi alveg segja að ég væri orðinn 100 prósent. Eina sem vantar núna upp á er leikformið. Maður hefur ekki fengið marga leiki þannig séð en mínútur hér og þar og þær telja.“

Stjarnan er komin á gott skrið eftir afleita byrjun á Íslandsmótinu. Í síðustu þremur leikjum hefur liðið unnið tvo og gert eitt jafntefli.

„Við höfðum alltaf trú á þessu. Við vorum ekkert lélegir í þessum leikjum í byrjun móts, þetta datt bara ekki fyrir okkur en datt kannski fyrir aðra.

Síðustu þrír leikir hafa verið virkilega góðir. Liðið er búið að vera þétt, menn að hlaupa og tilbúnir að berjast fyrir hver annan. Leikmennirnir höfðu engar áhyggjur af þessu, við vissum alltaf að við myndum komast í gang þegar við næðum að tengja okkur saman og spila góðan fótbolta,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert