Dómarinn alltaf á móti okkur

Frá baráttunni á Víkingsvelli í kvöld. Ísak Snær sést aftarlega …
Frá baráttunni á Víkingsvelli í kvöld. Ísak Snær sést aftarlega á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður ÍA, var skiljanlega afar svekktur eftir 0:1-tap liðsins gegn Víkingi í Reykjavík í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Nikolaj Hansen skoraði sigurmarkið úr víti í uppbótartíma. 

„Ég sá ekki vítið almennilega en mér fannst þetta ekki vera brot. Dómarinn var búinn að segja að þetta væri ekki brot en svo dæmir hann. Mér finnst dómarinn alltaf vera á móti okkur. Ég vil ekki kenna honum um, við áttum lélegan leik, en dómarinn átti stóran þátt í þessu. Það er greinilega línuvörðurinn sem dæmir þetta og hann sér þetta þúsund sinnum verr,“ sagði Ísak ósáttur. Hann viðurkennir hins vegar að Skagamenn hafi ekki spilað vel. 

„Þetta var erfitt fyrir okkur. Við lágum mikið niðri og sköpuðum ekki mikið af færum. Við höfðum ekki trú á að við gætum spilað boltanum niðri. Við hefðum átt að halda honum betur því við settum hann alltaf langt og þá töpuðum við honum. Við vorum svo allt of aftarlega, allt liðið. Fyrst og fremst héldum við boltanum illa og sköpuðum okkur fá færi,“ sagði hann. 

ÍA er í botnsætinu með aðeins sex stig og einn sigur eftir ellefu leiki. Hann segir stöðuna í deildinni ekki hafa mikil áhrif á liðið þegar í leikjum. „Kannski aðeins en það ætti ekki að skipta neinu máli. Við ættum að fara í alla leiki til að vinna. Við verðum að gleyma stöðunni í töflunni þegar á völlinn er komið.“

Hollendingurinn Wout Droste spilaði sinn fyrsta leik fyrir ÍA í kvöld og komst mjög vel frá sínu. Hann býr yfir mikilli reynslu úr hollensku úrvalsdeildinni. „Mér fannst hann fínn. Hann er nýkominn inn í þetta og hefur verið í sóttkví. Hann er að koma sér í leikform. Hann er rólegur á boltanum og það er það sem við þurfum núna. Hann þarf að vera aðeins fljótari að taka ákvarðanir en það sem ég hef séð lítur vel út.“

Ísak er að láni hjá ÍA frá enska félaginu Norwich og er óvíst hve lengi hann staldrar við á Skaganum. 

„Ég ætla bara að taka einn dag í einu og sjá hvað gerist. Bíðum þangað til í næsta leik og sjáum hvort ég verði klár. Ég er búinn að finna til í náranum í nokkra daga og í einni tæklingu þá fór nárinn alveg í kvöld,“ sagði Ísak Snær.

Ísak Snær Þorvaldsson í leik með ÍA.
Ísak Snær Þorvaldsson í leik með ÍA. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert