Teygði á okkur og spiluðu út úr leiknum

Elín Metta Jensen og Heiða Ragney Viðarsdóttir í leiknum í …
Elín Metta Jensen og Heiða Ragney Viðarsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Við áttum mjög góðan fyrri hálfleik og mér fannst við þá stjórna leiknum, en í seinni tók Valur völdin, teygði á okkur og spilaði okkur út úr leiknum,“ sagði Gyða Kristín Gunnarsdóttir úr Stjörnunni eftir 0:2-tap fyrir Val er liðin mættust í Garðabæ í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni.

„Mér fannst við betri í fyrri hálfleik en Valsliðið tók sig greinilega saman í andlitinu í hálfleik, gerði einhverjar breytingar sem við því miður náðum ekki að bregðast við. Mér finnst lið okkar alltaf vera ná betur og betur saman. Það sést greinilega á vellinum, við spilum vel enda var Valur ekkert að fá mikið af færum og þau komu eiginlega úr engu. 

Við verðum að klára færin okkar, eins og í fyrri hálfleik því þá hefði orðið allt öðruvísi leikur í þeim seinni. Hvert stig skiptir máli og nú verður barátta út alla seinni umferðina í mótinu að krækja í stig því það er svo stutt á milli liða,“ bætti Gyða Kristín við.  

mbl.is