Afar mikilvægur sigur Þróttara

Danijel Majkic og Gunnlaugur Hlynur Birgisson í leiknum á Selfossi …
Danijel Majkic og Gunnlaugur Hlynur Birgisson í leiknum á Selfossi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Þróttarar eru ekki af baki dottnir í næstefstu deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, og galopnuðu í kvöld baráttuna um að halda sæti sínu í deildinni. 

Þróttur er í ellefta og næstneðsta sæti en í kvöld heimsóttu þeir Selfyssinga sem eru í 10. sæti. Úrslitin í leiknum koma nokkuð á óvart en Þróttur vann 3:0 og fyrir vikið munar nú aðeins tveimur stigum á liðunum.

Með sigri hefði Selfoss geta skilið Þróttara eftir í erfiðri stöðu en svo fór ekki. Kairo Edwards-John skoraði fyrsta markið á 21. mínútu og var það eina markið í fyrri hálfleik. Hinrik Harðarson bætti við marki á 55. mínútu og Róbert Hauksson innsiglaði sigurinn á 90. mínútu. 

Afturelding er í 9. sæti með 16 stig, Selfoss með 12 stig í 10. sæti, Þróttur í 11. sæti eins og áður en nú með 10 stig og Víkingur Ólafsvík er með 2 stig.  

Guðlaugur Baldursson þjálfari Þróttar.
Guðlaugur Baldursson þjálfari Þróttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is