„Hallgrímur Mar er frábær“

Hallgrímur Jónasson, lengst til vinstri, fylgist með í kvöld.
Hallgrímur Jónasson, lengst til vinstri, fylgist með í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hallgrímur Jónasson aðstoðarþjálfari KA var að vonum sáttur eftir 2:1-baráttusigur gegn Keflavík í Pepsi Max-deild karla í kvöld. Leikurinn var mjög fjörugur en það var Hallgrímur Mar Steingrímsson sem var munurinn á liðunum en hann gerði bæði mörk heimamanna.

„Í fyrsta lagi bara flottur leikur hjá báðum liðum. Við náum að skora tvö mörk og vinna leikinn sem er gríðarlega sterkt. Við erum bara virkilega ánægðir með sigur á góðu liði. Við erum bara á þeim stað í deildinni sem við viljum vera á. Við teljum okkur vera með það gott lið að við eigum að vera í toppbaráttunni. Við duttum aðeins út úr henni þegar við tókum kafla þar sem við spiluðum vel en náðum ekki úrslitum. Síðan komu tveir leikir þar sem okkur fannst við ekki spila fótbolta en unnum, en í dag er ég ánægður með að við tengjum saman fína spilamennsku og sigur.“

Háværar sögusagnir gengu um Akureyri í dag um að Jonathan Hendrickx væri að fara að spila sinn síðasta leik fyrir KA í kvöld. Hallgrímur staðfesti það að leik loknum. „Já hann var að spila sinn síðasta leik fyrir KA og heldur heim til Belgíu á morgun.“

Í staðinn hafa KA-menn sótt danska bakvörðinn Mark Gundelach. Hallgrímur þekkir vel til hans. „Ég hef nú persónulega spilað með honum, spilaði með honum 2013. Þetta er strákur sem er ekkert ósvipuð týpa og Jonathan inni á vellinum. Hann er fljótur, góður fram á við, með mikla reynslu og svo er hann mjög flottur strákur utan vallar. Hann var líka að spila í sama liði og Mikkel Qvist svo hann þekkir hann vel.“

Um frammistöðu nafna síns hafði Hallgrímur þetta að segja: „Hallgrímur Mar er frábær leikmaður. Við erum gríðarlega ánægðir með hann í sumar. Ég vona að fólk taki eftir því að hann hefur þroskast mikið. Hann er orðinn frábær liðsmaður, hann hleypur eins og ég veit ekki hvað, bæði varnarlega og sóknarlega. Það er gaman að sjá, þegar menn vinna vel fyrir liðið og eru miklir liðsmenn, að hlutirnir gangi vel fyrir þá. Hann skorar mörk og gerir mjög vel fyrir okkur. Í dag fannst mér hann bara frábær, bæði vinnusemin og gæðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert