Kristinn kom inn á og skoraði tvö með hægri

KR-ingar fóru með sigur af hólmi í kvöld.
KR-ingar fóru með sigur af hólmi í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Kristinn Jónsson sneri aftur með stæl eftir að hafa misst af síðustu leikjum KR vegna veikinda þegar hann kom inn á sem varamaður og skoraði bæði mörk liðsins í 2:1 endurkomusigri gegn Leikni úr Reykjavík í 19. umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta í kvöld. Bæði mörk hins örvfætta Kristins komu með hægri fótar skotum.

KR-ingar voru sterkari aðilinn stærstan hluta fyrri hálfleiksins en gestirnir í Leikni settu heimamenn undir mikla pressu síðustu 10 mínúturnar eða svo.

Þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið góð færi til þess að skora í fjörugum hálfleiknum auðnaðist þeim það hvorugum og því markalaust í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn fór rólegar af stað en um hann miðjan, á 66. mínútu, kom hins vegar loks fyrsta mark leiksins.

Daði Bærings Halldórsson átti þá frábæra sendingu inn fyrir KR-vörnina á Daníel Finns Matthíasson sem var sloppinn einn í gegn hægra megin og lagði boltann örugglega í fjærhornið með vinstri fótar skoti framhjá Beiti Ólafssyni í marki KR, 0:1.

Daníel Finns Matthíasson kom Leiknismönnum yfir.
Daníel Finns Matthíasson kom Leiknismönnum yfir. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Aðeins fimm mínútum síðar jöfnuðu KR-ingar metin. Óskar Örn Hauksson gaf þá fyrir á varamanninn Atla Sigurjónsson sem skallaði boltann til Kjartans Henrys Finnbogasonar.

Leiknismenn potuðu honum frá en afar stutt og barst boltinn til varamannsins Kristins, sem hafði komið inn á í vinstri bakvörðinn á 64. mínútu. Hann náði hægri fótar skoti nálægt Guy Smit í marki Leiknis en hollenski markvörðurinn náði aðeins að verja það í netið, 1:1.

Á 87. mínútu skoraði Kristinn svo öðru sinni. Kennie Chopart gaf þá fyrir á Óskar Örn sem skallaði fyrir, Kjartan Henry var í baráttu við Brynjar Hlöðversson og náði að pota boltanum út til Kristins sem var mættur í miðjan vítateiginn og lagði boltann aftur með hægri fæti í fjærhornið, 2:1.

Á þriðju mínútu uppbótartíma komst varamaðurinn Birkir Björnsson nálægt því að jafna metin fyrir Leikni en frábært vinstri fótar skot hans á lofti small í þverslánni.

Þar sluppu KR-ingar með skrekkinn og sigldu að lokum góðum endurkomusigri í höfn.

KR er eftir sigurinn áfram í 4. sæti deildarinnar og Leiknir er sömuleiðis áfram í sætinu sem það var í fyrir leikinn, 8. sæti.

Hetja úr óvæntri átt

Leikurinn var jafn og skemmtilegur á að horfa. Leiknismenn naga sig væntanlega í handarbökin yfir því að hafa ekki fengið neitt út úr honum en þeir léku afar vel á löngum köflum og sköpuðu sér góð færi.

Það gerðu KR-ingar hins vegar líka og hefðu mörkin raunar getað verið talsvert fleiri yfir höfuð í leiknum.

Heimamenn sýndu mikinn karakter með því að snúa taflinu við og þar gerði vinstri bakvörðurinn Kristinn gæfumuninn.

Þó hann sé og hafi ávallt verið afar öflugur sóknarbakvörður sem leggur gjarna upp mörk er það ekki á hverjum degi sem hann skorar tvö mörk sjálfur í einum og sama leiknum, hvað þá bæði með hægri fæti og þá síður eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Andrés Manga Escobar sækir að vörn KR.
Andrés Manga Escobar sækir að vörn KR. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
KR 2:1 Leiknir R. opna loka
90. mín. Birkir Björnsson (Leiknir R.) á skot í þverslá +3 Vá! Þvílíkt skot! Birkir nær vinstri fótar skoti á lofti sem smellur í samskeytunum!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert