Verðskuldað en virkilega erfitt

Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði Þórs/KA með boltann..
Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði Þórs/KA með boltann.. mbl.is/Þórir Tryggvason

„Mér fannst þetta verðskuldaður sigur en þetta var virkilega erfitt, Fylkiskonur í þeirri stöðu sem þær voru í og við vissum að þetta yrði hark í dag en gaman að þetta hafðist,“  sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði Þórs/KA eftir 2:1 sigur á Fylki í Árbænum í þegar leikið var í 17. og næst síðustu umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

„Við vorum ekki beint smeykar við að mæta Fylki í dag, við vorum búnar að ræða að þetta yrði erfitt enda alltaf mikil læti í leikjunum við Fylki og barningur en mér fannst við tilbúnar að taka á móti því, mæta þeim vel þar. Ég held að við höfum lyft okkur upp um eitt sæti enda voru við ákveðnar að klára tímabilið með sóma og höldum því bara áfram,“ sagði fyrirliðinn.

Seinni hálfleikur eins og borðtennis

Andri Hjörvar Albertsson þjálfari Þórs/KA sagði eftir leikinn að liði hans hefði verið ljóst að Fylkiskonur myndu ekki gefa neitt eftir og var viðbúinn því.  „Þetta varð eins leikur og ég bjóst við.  Við vissum að við værum að fara mæta brjáluðu Fylkisliði, sem var tilbúið að leggja allt í sölurnar og mér fannst  við mæta þeim þannig, sérstaklega í fyrri hálfleik.   Sá seinni var meira eins og borðtennis þegar Fylkisliðið dældi boltanum inná okkar hættusvæði og við að sama skapi að halda ekki nógu vel í boltann.  Fylkir lá því á okkur í seinni hálfleik en við hlupum og börðumst, sem skilaði þremur stigum.“

Þór/KA er öruggt með sæti sitt í deildinni en hvorki þjálfarinn né liðið vill láta það duga.  „Við eigum frábæran heimaleik eftir, ég held að við getum farið í hann með höfuðið hátt og kassann úti með bros á vör.  Við erum auðvitað ekki í stressi með að komast í fallsæti en það er eitt sæti fyrir ofan okkur, sem við getum enn náð og við viljum gera allt til að ná því, endað þannig ofar í stigatöflunni og skemmtilegt að gera það fyrir framan okkar eigið folk,   sagði  Andri Hjörvar þjálfari Þórs/KA eftir leikinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert