Sækist ekki eftir formannsembætti KSÍ

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA.
Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags Akureyrar eða KA, hefur ekki leitt hugann að því að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun.

Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður sambandsins á dögunum eftir að KSÍ var sakað um þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.

Sævar hefur verið orðaður við formannsstólinn ásamt öðrum en hann segist ekki hafa íhugað framboð.

„Sú hugmynd hefur ekki skotist upp í kollinn á mér,“ sagði Sævar í Mín skoðun.

„Ég hef vissulega haft mína skoðun á þessu máli og verið ófeiminn að segja hana en svo það komi fram þá hef ég átt mjög gott samstarf við bæði Guðna [Bergsson] og Klöru [Bjartmarz].

Þú ert ekkert minni maður þó þú stígir fram og viðurkennir ákveðin mistök. Persónulega hef ég ekki verið að hugsa mér til hreyfings enda í mjög spennandi starfi hjá KA,“ bætti Sævar við.

mbl.is