„Viljum vera með þeim bestu í heimi“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður Orlando Pride í Bandaríkjunum og ein reyndasta landsliðskona núverandi A-landsliðshóps, segir leikmenn ólma vilja komast á heimsmeistaramót í fyrsta skipti eftir að hafa komist á fjögur Evrópumót í röð.

„Það er alltaf svakalegt hungur. Ég hef verið í Ástralíu og þetta er æðislegt land. Það væri ekki leiðinlegt að komast á sitt fyrsta HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. En ég held að við tökum bara einn leik í einu.

Við ætlum okkur sigur í hverjum einasta leik og lítum á björtu hliðarnar. Það verður gaman að nota þessa leiki fyrir sumarið. Við einbeitum okkur núna að undankeppni HM og svo kemur EM næsta sumar,“ sagði Gunnhildur Yrsa á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Eins og hún bendir á fer HM fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Mótið fer fram sumarið 2023 og hefur Ísland leik í undankeppninni fyrir það á þriðjudaginn kemur, þegar ríkjandi Evrópumeistarar Hollendinga koma í heimsókn.

Gunnhildur Yrsa sagði að það fái ekkert á íslenska liðið að hefja undankeppnina á svo erfiðum leik. „Það er alltaf gaman að mæta þeim bestu. Þá veit maður hvar maður stendur.

Við viljum vera með þeim bestu í heimi. Þetta er bara ákveðin áskorun og ég held að við séum bara allar mjög spenntar fyrir henni. Ég hef allavega gaman að því,“ sagði hún.

Getur allt gerst

Spurð um hvað íslenska liðið þurfi að gera til þess að ná í góð úrslit gegn gífurlega sterku hollensku liði sagði Gunnhildur Yrsa:

„Þetta er mjög sterk þjóð og við höfum spilað við þær nokkrum sinnum. Ég held að við þurfum bara að einbeita okkur að okkur sjálfum og vera þéttar. Við verðum örugglega meira í vörn en við höfum verið síðustu leiki en við höfum gaman af því.

Hún sem er frammi [Vivianne Miedema] er náttúrlega búin að skora endalaust og ég held að það sé mjög mikilvægt að loka á hana. Svo eru þær með öskufljóta leikmenn fram á við. Svo þurfum við að einbeita okkur að því að fá okkar færi og klára þau. Við vitum hvað hinir leikmennirnir geta en ef við mætum og spilum okkar besta leik getur allt gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert