Guðmann á förum frá FH

Guðmann Þórisson í leik með FH.
Guðmann Þórisson í leik með FH. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmann Þórisson, varnarmaðurinn reyndi, hefur leikið sinn síðasta leik með FH en samningur hans við knattspyrnudeild Hafnarfjarðarfélagsins verður ekki framlengdur.

Guðmann sagði í viðtali í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá, að sér hefði ekki verið boðinn nýr samningur hjá FH og staðfesti það í viðtali við fótbolta.net í dag.

Þar kom ennfremur fram að ákveðið hefði verið að Guðmann myndi ekki spila tvo síðustu leiki tímabilsins vegna höfuðböggs sem hann fékk á dögunum og hann á því ekki eftir fleiri leiki í búningi FH.

Guðmann er 34 ára gamall og er að ljúka þriðja tímabilinu í röð með FH en hann lék áður með liðinu á árunum 2012 til 2015. Þá hefur hann spilað með KA, Mjällby í Svíþjóð, Nybergsund í Noregi og Breiðabliki þar sem hann spilaði fyrstu ár ferilsins. Samtals hefur hann spilað 155 leiki í efstu deild hér á landi og alls 228 deildaleiki á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert