Heimaleikur Vestra í bikarnum í Kaplakrika?

Leikmenn Vestra hafa komið skemmtilega á óvart í bikarkeppninni og …
Leikmenn Vestra hafa komið skemmtilega á óvart í bikarkeppninni og eru komnir í undanúrslit. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Svo kann að fara að Vestri spili heimaleik sinn gegn Íslandsmeisturum Víkings í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði en ekki á Olísvellinum á Ísafirði.

Samúel Samúelsson hjá knattspyrnudeild Vestra staðfesti þetta í viðtali við Fótbolta.net í dag en veðurspáin fyrir Vestfirði um næstu helgi er mjög óhagstæð í vikunni og um næstu helgi.

„Mér skilst að það sé ekki séns á að fresta leiknum neitt, nema kannski um einn dag. Ef leikurinn fer ekki fram um helgina hérna fyrir vestan þá verður hann að fara fram annars staðar,“ sagði Samúel í viðtalinu og kvaðst hafa átt í viðræðum við FH um að spila leikinn í Kaplakrika ef með þyrfti.

„En að sjálfsögðu stefnum við að því að spila á Olísvellinum. Það er bara þannig. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ sagði Samúel við Fótbolta.net og sagði jafnframt að lið Vestra myndi æfa á höfuðborgarsvæðinu í vikunni en færi aftur vestur á föstudag ef leikfært verði þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert