Næst ekki í neinn á Hlíðarenda

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals.
Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Vals, gæti verið á förum frá félaginu.

Valsmenn sömdu við hollenska markvörðinn Guy Smit á dögunum en hann átti frábært tímabil með Leikni úr Reykjavík í sumar.

Smit, sem er 25 ára gamall, var á meðal bestu markvarða deildarinnar líkt og Hannes sem spilaði mjög vel fyrir Valsmenn.

Hannes er með riftunarákvæði í samningi sínum og gæti því farið frá félaginu á næstu dögum en framtíð hans hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga.

„Ég get ekki gefið neitt upp með það, það er nú bara þannig,“ sagði Hannes í samtali við fótbolta.net þegar hann var spurður út í stöðu sína hjá Valsmönnum.

Hann var því næst spurður hvort einhverjar viðræður væru í gangi milli hans og Valsmanna.

„Nei, það eru engar og næst ekki í neinn niðri á Hlíðarenda,“ bætti Hannes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert