Birkir Már er einstakur

Birkir Már Sævarsson, fyrir miðju og aftarlega á myndinni, fórnar …
Birkir Már Sævarsson, fyrir miðju og aftarlega á myndinni, fórnar höndum í sínum síðasta landsleik í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Birkir Már Sævarsson greindi frá eftir leik Íslands og Norður-Makedóníu í undankeppni HM í fótbolta ytra í kvöld að hann væri hættur með landsliðinu, en hann er aðeins einn þriggja landsliðsmanna sem hafa leikið yfir 100 landsleiki fyrir Ísland.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, hrósaði Birki í hástert eftir leik. „Hann var búinn að segja mér að þetta yrði hans síðasti gluggi," byrjaði Arnar og hélt svo áfram.

„Birkir Már er einstakur og það er ótrúlegur árangur að spila yfir 100 landsleiki. Hann er frábær manneskja og frábær fótboltamaður. Hann er búinn að vera frábær undanfarna mánuði og allt árið að hjálpa okkur að slípa okkur saman.

Auðvitað sér maður alltaf eftir frábærum leikmönnum en ég skil mjög vel að Birkir er kominn á þann aldur. Hann er ekki að fara að hætta í fótbolta en þetta er eðlileg ákvörðun hjá honum,“ sagði þjálfarinn um bakvörðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert