Biður um hjálp eftir nauðgunardóm á Íslandi

Andrés Manga Escobar í leik með Leikni síðasta sumar.
Andrés Manga Escobar í leik með Leikni síðasta sumar. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Kólumbíski knattspyrnumaðurinn Andrés Manga Escobar, sem var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir nauðgun í byrjun mánaðar, biðlaði landa sína um hjálp í Primer Toque de Win Sports-sjónvarpsþætti í heimalandinu.

Escobar, sem áfrýjaði dómnum til Landsréttar, er í farbanni á meðan málið er óleyst. Hann var dæmd­ur fyr­ir að hafa brotið á konu á heim­ili sínu þann 19. sept­em­ber síðastliðinn. Í viðtali í þættinum segir hann sína hlið af málinu.

„Ég er í íbúðinni minni í Reykjavík en ekki í varðhaldi. Ég hef hinsvegar áhyggjur og ég get ekki sofið, þrátt fyrir að vera saklaus. Ég vil biðja um hjálp því það er ekki sanngjarnt hvernig er komið fram við mig,“ byrjaði Escobar.

„Við hittumst í miðborginni og spjölluðum saman. Hún sagði mér að hún væri hrifin af kólumbískri menningu og lituðum strákum. Við fórum síðan heim til mín með samþykki beggja aðila og það sem stundum gerist hjá fullorðnu fólki gerðist.

Hún fór heim daginn eftir og ég bað hana um að láta mig vita hvenær hún kæmi heim. Daginn eftir sé ég að hún gleymdi jakkanum sínum og ég lét hana vita. Þá sagði hún mér að foreldrar hennar ætluðu að sækja jakkann, sem mér fannst skrítið. Þá hætti hún að svara mér og eftir stutta stund var lögreglan mætt,“ sagði Kólumbíumaðurinn.

„Hún sagði vinkonu sinni að hún muni ekki mikið eftir atburðum kvöldsins. Vinkonan tjáði henni þá að þetta væri nauðgun og þá kærði hún mig. Hún hefur áður kært fyrir nauðgun og þá endaði það með sýknun þar sem ekki voru næg sönnunargögn,“ bætti hann við.

Escobar segir að Héraðsdómur hafi hundsað sönnunargöng sem gæfu til kynna að hann væri saklaus. „Hún sendi mér kossakalla og talaði við mig eftir atvikið. Ef ég hefði nauðgað henni hefði hún varla gert það. Héraðsdómur hundsaði þessi sönnunargögn. Ég myndi aldrei níðast á konu og ég þarf hjálp,“ sagði Escobar, sem lék með Leikni úr Reykjavík síðasta sumar, enn fremur.

mbl.is