Hann var ekki í neinum vafa og ég treysti honum

Heimir Guðjónsson þjálfari Vals fylgist með á hliðarlínunni á Akureyri …
Heimir Guðjónsson þjálfari Vals fylgist með á hliðarlínunni á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér fannst við spila ágætlega í þessum leik. Við hefðum mátt vanda okkur meira í sendingum frammi á vellinum.

Þegar við komumst í gegnum fyrstu pressu þá var allt opið fyrir okkur og þá hefðum við þurft betri sendingar til að nýta það. Mér fannst við komast sanngjarnt yfir en svo gerum við mistök, sem verða þess valdandi að við fáum rautt spjald. Eftir það voru KA-menn sterkari og jöfnuðu leikinn verðskuldað.

Vissulega svekkjandi niðurstaða eftir að hafa komist yfir og með góð tök á leiknum. Við verðum að taka þetta stig og halda áfram. Það eru 16 leikir eftir í deildinni þannig að það er nóg eftir. Við hugsum bara um að vinna næsta leik og erum ekkert að spá í stöðuna í deildinni akkúrat núna.“ 

Þetta sagði þjálfarinn víðkunni, Heimir Guðjónsson, eftir leik KA og Vals í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Mjög góð greining á leiknum, sem fór 1:1. 

Sást þú hvað gerðist þegar Guðmundur Andri fékk rauða spjaldið? 

„Ég sá það ekki nógu vel en mér sýndist hann slæma höndinni í Jajalo. Erlendur dómari var mjög vel staðsettur og fór beint í rassvasann til að ná í rauða spjaldið. Hann var ekki í neinum vafa og ég treysti honum. Mér fannst samt sumir dómar hjá honum rangir eins og þegar Dusan fór niður eftir að Sigurður Egill komst fram hjá honum. Þar dæmdi hann aukaspyrnu. Mér fannst smá ósamræmi hjá honum í dag og það er óvanalegt“ sagði Heimir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert