Auðvelt hjá FH í Hafnarfjarðarslagnum

Úr leiknum í Kaplakrika í kvöld.
Úr leiknum í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

FH hafði betur gegn nágrönnum sínum Haukum með afar sannfærandi hætti þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Kaplakrikavelli í kvöld.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom FH yfir strax á annarri mínútu og Dagrún Birta Karlsdóttir´, leikmaður Hauka, varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 19. mínútu.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir bætti við þriðja markinu úr vítaspyrnu og staðan því 3:0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik komust Esther Rós Arnarsdóttir, Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir einnig á blað og lokatölur því 6:0.

Með sigrinum endurheimti FH toppsæti deildarinnar, þar sem liðið er nú með 23 stig, tveimur meira en HK í öðru sæti.

Haukar eru áfram á botninum með aðeins 3 stig.

mbl.is