„Gefumst ekkert upp“

Eggert Aron Guðmundsson er vongóður þrátt fyrir tap Stjörnunnar í …
Eggert Aron Guðmundsson er vongóður þrátt fyrir tap Stjörnunnar í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stjarnan lagði land og sjó undir fót þegar þeir heimsóttu ÍBV í Bestu deild karla í dag. Leikurinn endaði með 3:1 sigri heimamanna en fátt féll með Stjörnumönnum í leiknum.

„Tilfinningin eftir leik er ekki alveg sú besta, af því við lögðum leikinn vel upp og skoruðum gott mark í fyrri hálfleik. En það endar með því að þeir skora tvö mörk og fara með mikinn meðbyr með sér inn í hálfleik. Síðan missum við auðvitað, snemma í seinni hálfleik, leikmann útaf og svo skora þeir. Við höldum náttúrulega áfram að sækja og gefumst ekkert upp,“ sagði kantmaðurinn ungi, Eggert Aron Guðmundsson, í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Stjörnumenn urðu fyrir áfalli í byrjun leik þegar þeir misstu sinn hættulegasta mann, Emil Atlason, útaf vegna meiðsla.

Allt mögulegt fyrir úrslitakeppnina

„Já mjög líklega. Það er ekki hægt að pressa almennilega eins og við erum vanalega að gera. En mér fannst við leysa þetta þokkalega,“ sagði Eggert Aron aðspurður um hvort að Stjörnumenn hafi saknað Emils í leiknum.

Fyrir leikinn voru Stjörnumenn að elta Evrópusæti og misstu því af dýrmætum stigum í dag. Góðu fréttirnar fyrir Stjörnumenn eru hinsvegar að úrslitakeppnin bíður handan hornsins og allt mögulegt.

„Við tökum bara leik fyrir leik. Við ætlum bara að halda áfram að spila okkar leik og þá munu úrslitin koma,“ sagði kantmaðurinn ungi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert