Ísak með Rosenborg frá áramótum?

Ísak Snær Þorvaldsson hefur átt gott tímabil með Breiðabliki.
Ísak Snær Þorvaldsson hefur átt gott tímabil með Breiðabliki. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Norska knattspyrnufélagið Rosenborg er langt komið með að tryggja sér Ísak Snæ Þorvaldsson, leikmann Breiðabliks og 21-árs landsliðs Íslands, fyrir næsta tímabil.

Þetta segir norski netmiðillinn Nettavisen í dag og vísar til staðarmiðilsins nidaros.no í Þrándheimi. Sagt er að viðræður Rosenborg og Breiðabliks um Ísak séu á lokastigi. Talsvert er síðan áhugi norska félagsins á Ísaki kom í ljós og hann æfði með liðinu um tíma fyrr í sumar.

Sagt er að ef allt gangi að óskum verði Ísak leikmaður Rosenborg frá og með næstu áramótum. Að vísu hafi sænskt félag líka sýnt honum mikinn áhuga. Forráðamenn félagsins vilja ekkert staðfesta en íþróttastjórinn Mikael Dorsin segir við nidaros.no að þeir fylgist með mörgum leikmönnum og horfi mikið á íslenskan fótbolta þar sem margir efnilegir leikmenn spili.

Ísak er þriðji markahæsti leikmaður Bestu deildar karla með 13 mörk en hann kom til Breiðabliks frá ÍA síðasta vetur og hafði þá verið á mála hjá enska félaginu Norwich í nokkur ár.

Kristall Máni Ingason er leikmaður Rosenborg en félagið keypti hann af Víkingum í lok júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert