Gunnhildur heim í Garðabæinn

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir landsliðskona í knattspyrnu er komin heim eftir ellefu ár í atvinnumennsku erlendis og er gengin til liðs við sitt gamla félag, Stjörnuna.

Gunnhildur hefur leikið í bandarísku atvinnudeildinni undanfarin ár og tvö síðustu tímabil með Orlando Pride.

Gunnhildur er 34 ára gömul og hóf meistaraflokksferilinn með Stjörnunni fyrir tuttugu árum, þá 14 ára  að aldri.

Hún lék með Stjörnunni samfleytt til 2012, spilaði 119 úrvalsdeildarleiki og skoraði 25 mörk og tók þátt í að vinna fyrstu stóru titla félagsins þegar það var Íslandsmeistari 2011 og bikarmeistari 2012.

Hún lék síðan með Arna Björnar, Grand Bodö, Stabæk og Vålerenga í Noregi frá 2013 til 2017, en síðan í Bandaríkjunum frá 2018 með Utah Royals og Orlando Pride. Í einu vetrarfríinu þar spilaði Gunnhildur með Adelaide í Ástralíu og var síðan í láni hjá Val seinni hluta tímabilsins 2020 þegar keppni lá niðri í Bandaríkjunum vegna kórónuveirunnar.

Gunnhildur er sjötta leikjahæsta knattspyrnukona Íslands í deildakeppni frá upphafi með 315 deildaleiki fyrir sín félög, heima og erlendis.

Hún hefur verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu um árabil, síðast á EM kvenna í sumar og í undankeppni HM í haust, en Gunnhildur hefur leikið 96 landsleiki og skorað í þeim 14 mörk.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve mikill liðsstyrkur þetta er fyrir Stjörnuna sem náði öðru sæti í Bestu deild kvenna á síðasta tímabili og leikur því í undankeppni Meistaradeildarinnar í ágústmánuði.

mbl.is